Þjóðargersemi íslendinga

Nánast hver einasti íslendingur fylgdist með strákunum okkar keppa á EM í fótbolta í Frakklandi. Íslenska landsliðið heillaði heimsbyggðina upp úr skónum með frábærri spilamennsku auk þess sem stuðningslið landsliðsins var til fyrirmyndar. Eftirminnileg eru víkingaklöppin sem tekin voru í lok hvers leiks ásamt lýsingu Gumma Bens á leikjum Íslands en hann fór á kostum og öðlaðist heimsfrægð. Íslandi tókst að komast í 8 liða úrslit án þess að tapa en ævintýrinu lauk þar.

Við Birgisdætur erum mjög stoltar af okkar liði og okkar árangri. Það sem mér fannst standa upp úr í þessari keppni var samhugurinn hjá íslensku þjóðinni. Allir hvöttu strákana áfram, allir fylgdust með, það var varla rætt um neitt annað en fótbolta á meðan strákarnir voru í keppninni. Ef einhver hefði sagt við mig fyrir tveimur árum að ég myndi horfa á heilan fótboltaleik þá myndi ég skellihlæja og telja þá manneskju vera að rugla, ég hefði sko ekki úthald né áhuga að horfa á fótboltaleik. En viti menn, ég horfði á alla leiki með íslenska landsliðinu og nokkra aðra til. Þátttaka þeirra á mótinu þjappaði þjóðinni saman og gerði okkur að stoltum íslendingum. Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er orðin að þjóðargersemi okkar íslendinga.

landslið karla

En við eigum aðra þjóðargersemi. Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta hefur staðið sig gríðarlega vel í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer í Hollandi árið 2017. Þær hafa unnið alla sína leiki hingað til og hafa ekki fengið á sig eitt einasta mark. Þær eru efstar í sínum riðli. Fyrir utan það þá hoppuðu stelpurnar upp um fjögur sæti á heimslista FIFA og eru nú í 16. sæti. Ég vona að þegar stelpurnar keppa á EM (já, ég er handviss um að þær komast á mótið þó svo það liggi ekki fyrir enn) að þá muni þjóðin standa þétt við bakið á þeim alveg eins og við strákanna. Ég vona að þeirra leikir verði líka sýndir beint í sjónvarpinu og að komi verði upp EM-torgi niðri í bæ þar sem hægt er að fylgjast með leikjunum. Ég vona að þegar þær ljúka keppni að þá mun þjóðin hylla þær við heimkomu alveg eins og við gerðum við strákanna okkar.

íslenska kvennalandsliðið

Það er því miður þannig að kvennalið í íþróttum fá ekki eins mikla athlygli fjölmiðla eins og karlar. Þrátt fyrir að árið sé 2016 og við séum frekar langt komin í jafnréttisbaráttu hér á Íslandi þá eigum við langt í land hvað varðar íþróttir. En eitt veit ég, að ég mun sitja jafn spennt og fylgjast með stelpunum okkar alveg eins og ég fylgdist með strákunum. Framtíðin er björt hjá okkur í fótbolta og eigum við frábærar fyrirmyndir sem er góð hvatning fyrir ungt íþróttafólk. Áfram íslenskur fótbolti og áfram Ísland!

-Gróa Rán

Advertisements

Endalausar kröfur

Í lok maí var ég að klára strembna önn í háskóla þar sem ég meðal annars skrifaði eitt stykki BS-lokaverkefni. Síðan fékk ég 22 daga sumarfrí áður en sumarvinnan mín skemmtilega byrjar og í dag er síðasti dagurinn. Í þessu sumarfríi er ég búin að sofa mjög mikið. Flesta daga fer ég með drenginn minn á leikskólann og kem svo aftur heim, skríð upp í rúm og sef til hádegis. Síðasta vika var engin undartekning. Einn daginn þegar ég vaknaði af þessum lúr þá byrjuðu niðurifshugsanirnar. Ég fór að rakka sjálfan mig niður fyrir letina í mér. Að eyða sumarfríinu í svefn! Þegar ég gæti verið að gera eitthvað miklu nytsamlegra. Hvaða fullorðna manneskja sefur fram á hádegi? Ég er enginn unglingur. Ég er bara aumingi sem fer illa með tíma sinn.

Þessar hugsanir og fleiri hafa trekk í trekk leitað á mig í sumarfríinu. En þennan dag sagði ég stopp. Hingað og ekki lengra. Eiga sumarfrí ekki að snúast um að hlaða batteríin? Ég var að klára mjög erfiða háskólaönn og er ég frekar útkeyrð eftir hana. Auk þess er minn veikleiki að höndla illa mikið álag og þarf ég að passa vel upp á að slaka á og hvíla mig eftir svona tarnir. Annars getur það haft slæm áhrif á geðheilsuna, enda hef ég lent tvisvar inn á geðdeild vegna of mikils álag sem ég réði ekki við.

Af hverju er ég þá að rakka mig niður? Fyrir utan það að ég fór svo að skoða hvað ég hef gert í sumarfríinu mínu. Ég hef hitt vini og vinkonur, boðið heim í grill og farið í grillboð. Spilað í góðra vina hópi og farið nokkrum sinnum í bíó. Ég gæsaði góða vinkonu og fór meira að segja á eina Tupperware kynningu. Einnig hef ég passað frænkur mínar og skellt mér í nokkur afmæli. Farið í sveitina mína og tók þátt í the Color Run. Nú fyrir utan það að halda húsinu sæmilega hreinu og farið í ræktina og göngutúra. Á þessum 22 dögum hef ég haft nóg fyrir stafni þrátt fyrir að hafa sofið fram á hádegi flesta daga.

Það er alveg ótrúlegt hversu fljótt maður dettur í niðurifsgír. Í mínu tilviki dett ég í þann gír þegar ég er að setja endalausar óraunhæfar kröfur á sjálfan mig. Ég ætlast til að vakna kl. 7 alla morgna og vera á fullu allan daginn. Nýta hvern tíma í eitthvað agalega sniðugt eins og að taka til í geymslunni og fara í gegnum fataskápinn. Annars er maður bara einskins nýttur aumingi sem gerir ekkert gagn. Sem betur fer er ég farin að þekkja mynstrið mitt og læra að segja stopp. Hætta þessum endalausu kröfum. Ég er bara þannig gerð að eftir mikið álagstímabil þá þarf ég að safna kröftum og besta leiðin fyrir mig er með því að sofa. Ef ég hefði verið að rífa mig á fætur alla morgna þá efast ég um að ég hefði komið eins miklu í verk í félagslífinu eins og raun ber vitni. Enda finnst mér þetta búið að vera skemmtilegt sumarfríi og kem ég endurnærð inn í sumarvinnuna.

Það sem ég er að reyna að koma frá mér með þessum pistli er gamla tuggann að þetta snýst allt um hugarfar. Hvernig maður lítur á hlutina. Ég get litið á sumarfríið sem tímasóun og leti og rakkað mig niður fyrir það eða sem nauðsynlega hvíld og afslöppun með það markmiði að byggja mig upp aftur eftir erfiða skólatörn. Ég get horft á þetta með neikvæðu eða jákvæðu hugarfari. Mitt er valið og ég vel að vera jákvæð. Það gerir lífið bara svo miklu auðveldara 🙂

-Gróa Rán

I am not lazy facebook photo cover_thumb

Að sættast

Í mars á þessu ári hóf ég í ferðalag. Þetta ferðalag hófst með því að ég sendi sálfræðingi tölvupóst og óskaði eftir viðtalstíma. Ég vissi reyndar ekki þá hvað myndi gerast, en þessi tölvupóstur markaði upphafið. Ég var að byrja sættast við mig sjálfa.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að óska eftir viðtalstíma var sú að ég hafði verið að upplifa vanlíðan í nokkra mánuði.  Mig langaði að vinna á þeim hugsunum sem sífellt reyndu að berja mig niður. Þeim hugsunum sem síflelt efuðust skrefin sem ég tók eða langaði að taka á lífsleiðinni. Að ég væri ekki nógu góð, þetta myndi eflaust enda illa og fleiri hugsanir í þeim dúr.

Meðan ég beið eftir svari um viðtalstíma greip ég í þau ráð sem ég hafði lært í gegnum tíðina. Ég gerði heiðarlega tilraun til að leiðrétta hugsanarvillur og skrifaði niður á blað:

„Í gær var ég hrædd við framtíðina. Í dag er ég enn hrædd en til þess að fara ekki yfirum þá ramma ég inn tímann. Ég einblíni á daginn í dag. Á verkefni dagsins. Þrátt fyrir að vera með tárin í augunum þá áorkaði ég ágætlega mikið í dag í bland við sunnudagsleti. Nenni ekki að skrifa meir. Finnst ég tóm að innan. Enginn grátur núna. -Viktoría”.

Ég man ekki nákvæmlega hvað við ræddum í fyrsta viðtalstímanum, ég og sálfræðingurinn. Ég man að ég var þreytt og taugaóstyrk. Ég man að ég grét.

Hjá þessum sálfræðingi kynntist ég nýrri meðferð, frásagnarmeðferð (e. narrative therapy).
Frásagnarmeðferð er nálgun sem leitast við að vera virðingarverð án þess að kenna neinu um (e. non-blaming). Einstaklingar eru gerðir að sérfræðingum í sínu eigin lífi. Þessi nálgun aðskilur vandamálin frá einstaklingum og gerir ráð fyrir að einstaklingar búi yfir miklum hæfileikum, trú og hæfni sem hjálpar þeim að minnka áhrif vandamálanna á þeirra eigið líf.

frásagnarmeðferð

Margt hefur á daga mína drifið síðan ég kynntist þessu meðferðarformi. Ég veit ekki hvort ég hef lokið ferðalaginu, hvort ég sé loksins orðin sátt við mig sjálfa. Mér líður samt þannig. Í fyrsta sinn í langan tíma upplifi ég sátt. Ég er sátt við mig eins og ég er. Um daginn gekk ég framhjá spegli og samstundis kom hugsun: „Þú ert sæt í dag Viktoría”. Þetta hljómar eflaust kjánalega fyrir suma, en fyrir mig er þessi hugsun mikill sigur. Því fyrsta hugsunin var jákvæð. Vanalega var hún neikvæð og meira að segja ill á köflum. En ekki lengur. Auðvitað koma dagar þar sem ég er minna sátt við mig sjálfa. En það er líka eðlilegt. Ég er sátt við þá daga líka.

Ég hlakka til að halda áfram í mínu ferðalagi. Ég veit ekki hvert lífið mun leiða mig en ég vona innilega að ég fái tækifæri til að vera enn sátt við mig sjálfa. Ég ætla allavega að gera mitt besta til þess.

Að lokum langar mig að deila lagi eftir vinkonu mína sem mér þykir mjög vænt um. Þá daga sem mér líður ekki vel finnst mér rosalega gott að gráta og hlusta á góða tónlist í leiðinni. Þetta lag hefur oftar en einu sinni orðið fyrir valinu til að hjálpa mér að vera sátt við vanlíðan, sátt við mig eins og ég er sama hvað.

-Viktoría

 

 

 

Að velja jákvæðni

Ég er mjög jákvæð að eðlisfari. Ég lifi eftir jákvæðni. Þegar ég veiktist og greindist með geðhvarfasýki þá ákvað ég strax frá byrjun að líta á veikindin mín á jákvæðan hátt. Að það væri gott að vera loksins komin með greiningu. Að það sé auðveldara að díla við andleg veikindi ef maður veit nákvæmlega hvað maður er að díla við. Að ég sé svo heppin að fá góða þjónustu frá geðheilbrigðiskerfinu þar sem er vel hugsað um mig. Að nú geti ég lært um minn sjúkdóm og leiðir til að lifa með honum.

Ég hefði getað tekið annan pól í hæðina. Ég hefði getað bölsótast yfir því að vera lasin. Sett mig í sjúklingshlutverk. Horft á sjúkdóminn sem neikvæðann. Sjúkdóm sem væri að eyðileggja allt fyrir mér. Falið mig á bak við sjúkdóminn. Notað hann sem afsökun fyrir að lifa ekki lífinu.

Ég trúi því að allir hafi val. Val um það að vera jákvæður eða neikvæður. Hvort heldur þú að skili betri árangri?

Þegar ég valdi að vera jákvæð gagnvart mínum veikindum þá ákvað ég í leiðinni að láta þau ekki stoppa mig. Geðhvarfasýkin er hluti af mér og ég þarf að taka tillit til hennar. En ég held áfram að lifa mínu lífi þrátt fyrir veikindin. Þessi veikindi skilgreina mig ekki. Ég er ekki geðhvarfasýki og geðhvarfasýkin mun ekki stjórna mínu lífi.

Þegar erfiðleikar bjáta á munið þá að þið hafið alltaf val um það hvernig þið tæklið þá. Viðhorf kemur manni ótrúlega langt. Ég hvet ykkur til að velja jákvæðni. Lífið verður svo miklu skemmtilegra fyrir vikið ❤

-Gróa Rán

positive

Ósýnileg stólakeppni

Mig langar að deila með ykkur litlum sigri. Ég var á fitness box æfingu og í lokin á henni ákvað kennarinn að vera með smá keppni. Við áttum öll að setjast á ímyndaðan stól í 90 gráður og sá sem hélt út lengst vann. Það fyrsta sem ég hugsaði var að taka ekkert þátt í keppninni, þar sem ég er þekkt fyrir að vera með lítið keppnisskap. Ég ákvað bara gera mitt besta, sitja eins lengi og ég gæti og hitt skipti ekki máli. Það kom mér því á óvart þegar ég vann keppnina. Þegar hópurinn klappaði fyrir mér þá var ég rosalega þakklát. Það nefnilega rifjuðust upp fyrir mig öll þau skipti þar sem ég var valin síðust í íþróttum í grunnskóla. Ég tók því aldrei neitt sérstaklega inná mig sem barn eða unglingur. Ég vissi alveg að ég væri ekkert góð í íþróttum. En þarna endurspeglaðist mitt litla sjálfstraust í hugsun. Ég trúði því ekki að ég væri eitthvað góð í íþróttum og sætti mig því bara við það að vera valin síðust. Ég byrjaði nefnilega ekki að hreyfa mig fyrir alvöru fyrr en ég var orðin 20 ára gömul. Ástæðan fyrir því var einföld, ég fékk skýr skilaboð frá lækni að drattast í ræktina. Málið er að ég er með skaddað brjósk í hné eftir að ég hnéskelsbrotnaði sem barn. Það hefur lítið hrjáð mig fyrir utan að ef ég hleyp snöggt af stað þá átti hnéskelin til að kippast við með þeim afleiðingum að ég datt í jörðina og hnéð varð stokkbólgið í nokkra daga. Þegar ég var 20 ára gerðist þetta eina ferðina enn. Ég var að koma af jólaskemmtun og þar sem það var kalt úti ákvað ég að hlaupa að næsta skemmtistað. Hnéskelin kipptist til, ég datt í jörðina og sem betur fer var góðhjartað fólk sem hjálpaði mér inn á næsta stað og gaf mér vatnsglas. Daginn eftir skipaði mamma mér að fara uppá slysó þar sem ég var send í myndatöku og svo þaðan til bæklunarlæknis. Bæklunarlæknirinn tók meiri myndir og tilkynnti mér svo að það er í raun ekkert hægt að gera nema þjálfa upp vöðvana í kringum hnéð. Með því gæti ég komið í veg fyrir að hnéskelin myndi kippast svona til. Frábært hugsaði ég. Ég þarf semsagt að drattast í ræktina. 5 árum síðar líður ekki heil vika án þess að ég mæti í ræktina eða hreyfi mig á einhvern annan hátt. Ég fer 3-5 sinnum í viku og get ekki hugsað mér lífið án þess að hreyfa mig. Ég finn hversu betur mér líður líkamlega og andlega. Enda hefur hnéskelin ekki kippts til í nokkur ár. Ef 25 ára ég gæti sagt við 18 ára mig að ég myndi vinna ósýnilega stólakeppni á fitness box æfingu myndi 18 ára ég alls ekki trúa því. Hún myndi ekki trúa því að óörugga Viktoría myndi nokkurn tíman hafa kjarkinn til að prófa eitthvað eins og fitness box. Hún sem átti erfitt með bara það eitt að þora í sturtu eftir skyldu tíma í íþróttum í menntaskóla. Sem unglingur var ég nefnilega ekki bara í lélegu formi (að mínu mati), ég var líka  mjög ósátt við minn eigin líkama. Var hrædd um að aðrir myndu taka eftir hversu ljót ég væri. Á þessum tíma hélt ég líka að það væri eðlilegt að hugsa svona um líkama minn. Ég var nú unglingur og það virtist vera normið að vera ósáttur við sinn eigin líkama. Sem betur fer hefur þessi hugsun breyst hjá mér. Ég er mjög sátt með minn líkama í dag og ég er stolt af sjálfum mér fyrir að hafa loksins áttað mig á að ég get líka, eins og allir aðrir, verið góð í íþróttum. Ég hreyfi mig ekki til að líta betur út. Ég hreyfi mig til þess að líða vel, bæði líkamlega og andlega. Ég vona að unglingstelpur í dag hreyfi sig líka út af þeirri ástæðu. Ég vona að normið sé breytt og þær séu ekki ósáttar við sinn líkama. Ef normið er enn hið sama þá vona ég svo innilega að við sem erum sátt í eigin skinni hjálpum öðrum með hrósi og hvatningu að verða það líka.

-Viktoría

11119303_10153916915238082_3159401870896265898_n

 

Gleðilega lærdómstörn

Ég (Viktoría) var að klára minn síðasta tíma í BS námi mínu. Á morgun hefst fyrsti í verkefnavinnu og prófalestri. Vorið er oft tími nöldurs hjá skólafólki þar sem það liggur sveitt yfir skólabókun og vill láta alla vorkenna sér. Skólafólkið þráir að gera eitthvað annað skemmtilegra og finnst lífið voðlega erfitt og ósanngjarnt. Sérstaklega þegar sól skín skært á himni. Undirrituð er þar alls ekki undanskilin. Ég ætla hins vegar að tileinka mér sama viðhorf í komandi lærdómstörn eins og ég tileinkaði mér fyrir ári síðan. Það er nefnilega forréttindi að hafa fæðst í landi sem býður uppá skólagöngu fyrir alla, óháð kyni, stétt og stöðu. Það eru ekki allir svo heppnir. Við Íslendingar eigum það til að gleyma hvað við höfum það í raun gott. Þrátt fyrir kaldan og dimman vetur þá búum við í fallegu landi með fullt af tækifærum. Ég ætla því að fagna prófunum. Ég ætla fagna því að klára enn eina önnina í mínu námi. Ég ætla klappa mér á bakið fyrir dugnaðinn og ég ætla að vera þakklát fyrir það sem ég hef, fyrir það sem mér býðst. Ég vona að fleiri geri slíkt hið sama.

Kærleikskveðja

-Viktoría

 

malala

Að elta drauma sína þó að á móti blási

Mér er oft hugsað til þess hvert maður stefnir í lífinu. Hversu langt maður er tilbúinn að fara. Eftir menntaskólann ákvað ég að fara í nám í iðjuþjálfun. Það var námsráðgjafi sem benti mér á þetta nám og þegar ég las mér til um það á heimasíðu Háskólans á Akureyri þá fannst mér þetta vera kjörið nám fyrir mig.

En háskólagangan mín hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig. Ég á tilltölulega auðvelt með að læra og námslega séð hefur þetta gengið ágætlega. En eins og flestir vita þá fylgir háskólanámi mikið álag. Og það sem ég hef lært í mínu námi er það að ég höndla ekki mikið álag.

Tvisvar á mínum háskólaferli hef ég gjörsamlega hrunið. Einu sinni á fyrsta árinu og svo á lokaárinu. Í bæði skiptin varð ég að taka þá ákvörðun að hægja á mér í náminu, segja mig úr áföngum til að hlúa að heilsunni. Í bæði skiptin þurfti ég að leggjast inn á geðdeild og dveljast þar í nokkrar vikur. Í fyrra skiptið kom ekki nákvæmlega í ljós hvað leiddi til þess að ég hrundi, annað en of mikið álag. Í seinna skiptið kom í ljós að ég er með geðhvarfasýki og að of mikið álag í bland við svefnleysi triggerar maníu.

Ég er núna að skrifa Bs – ritgerðina mína. Ég hef reynt eins og ég get að stýra álaginu og hingað til hefur það gengið vel. Ég á ekki von á öðru en það muni halda áfram að ganga vel. Ég stefni síðan að klára námið í desember og útskrifast í febrúar á næsta ári. Tilfinningin að vera svo nálægt takmarkinu, að vera loksins að klára háskólanámið og verða iðjuþjálfi, er ólýsanleg.

Ég vildi með þessum pistli hvetja ykkur að gefast ekki upp á draumum ykkar. Margoft hefur leitað á huga minn að gefast upp. Hætta þessu háskólanámi. Að ég sé ekki að ráða við hlutina. En ég er þrjósk að eðlisfari og hef ég notað hana til að sussa á þessar neikvæðisraddirnar. Halda ótrauð áfram. Ég er líka dugleg að líta á björtu hliðarnar og sé hversu mikið ég hef þroskast á þessum árum. Hvað ég hef lært inn á sjálfan mig.

Mikilvægast er líka öll hrósin sem ég hef fengið frá fólkinu í kringum mig. Stuðningur annarra er ómetanlegur. Það er allt í lagi að stefna hátt í lífinu og það er allt í lagi þó að þín leið að settu marki sé ekki sú sama og annarra. Svo lengi sem þú gefst ekki upp á draumum þínum þegar á móti blæs.

Öll höfum við val um hvernig við bregðumst við það sem lífið gefur okkur. Valið er þitt. Lætur þú erfiðleikanna brjóta þig niður eða byggja þig upp? Ég valdi að líta á erfiðleikana sem tækifæri. Tækifæri til að þroskast, læra meira á sjálfan mig og verða betri útgáfa af sjálfum mér. Horfa á erfiðleikanna með jákvæðu hugarfari. Ég er alveg sannfærð um að þessi þrautaganga mín í háskólanámi muni gera mig að enn þá betri iðjuþjálfa þegar ég útskrifast loksins.

-Gróa Rán

Svarta skýið

Ég er jákvæð að eðlisfari. Oftast fer ég inn í daginn með bros á vör. En það koma dagar þar sem mér líður ekki vel. Þá finnst mér eins og það dragi fyrir sólu. Svart ský. Þá daga leita á mig neikvæðar niðurrifshugsanir. Svartar hugsanir sem draga úr mér allan kraft. Hugsanir eins og:

  • Ég er ekki að ráða við hlutina.
  • Ég er ekki að standa mig vel.
  • Mér mun aldrei takast að fúnkera eins og aðrir venjulegir einstaklingar.
  • Ég get þetta ekki.
  • Ég er ekki nógu góð.

Með þessum hugsunum fylgir kvíði og vanlíðan og áður en ég veit af byrja tárin að leka. Svarta skýið heltekur mig.

dark-cloud

Skýið getur komið á örskotsstundu. Einu sinni var ég stöðugt að berjast á móti því. Því þá var markmiðið að líða alltaf vel. Núna tækla ég svarta skýið á annan hátt. Ég sest niður og leyfi því að vera. Leyfi tárunum að flæða eins og rigningu. Því það er óraunhæft að ætla sér að lifa lífinu brosandi alla daga. Svo í stað þess að berjast við tárin þá sætti ég mig við þau. Það að gráta fylgir líka ákveðin spennulosun sem lætur mér líða betur. Þetta er hluti af því að vera með geðhvarfasýki. Þeim sjúkdómi fylgir svart ský. Lykillinn er að muna að það birtir alltaf til um síðir. Eftir að ég hef grátið í smástund þá byrja ég á uppbyggingunni. Anda djúpt og byrja að tala fallega til mín. Svara öllum niðurrifshugsununum sem leituðu á mig með jákvæðni:

  • Ég er að gera hlutina eins vel og ég get.
  • Ég er að standa mig.
  • Ég fer á fætur á morgnanna og tek þátt í deginum, er það ekki að fúnkera?
  • Ég er GÆS (get, ætla, skal).
  • Ég er nóg!

Áður en ég veit af hefur létt til. Brosið birtist aftur á varirnar og ég sé lífið í fallegum litum regnbogans.

everybody-wants-happiness-nobody-wants-pain-but-you-cant-have-a-rainbow-without-a-little-rain-quote-1

 

Okkar eigið vistspor

Leonardo DiCaprio fékk loksins Óskarsverðlaun. Það sem mér fannst þó magnaðast var þakkarræðan hans. Við gleymum oft að huga vel að jörðinni okkar og því er æðsilegt að sjá svona stórstjörnu minna okkur á það.

12512264_10153704408131130_3919212287820679190_n

Við erum nefnilega öll með okkar eigið vistspor (e. ecological footprint). En vistspor er það „far” sem þú skilur eftir þig á jörðinni með þinni umhverfishegðun. Það er hægt að reikna út hve marga hnetti þarf ef allir ganga sömu vistspor og þú. Ef allir á hnettinum haga sér eins og vestræn þjóðfélög þá þurfum við að minnsta kosti þrjá hnetti. Ef allir haga sér eins og Bandaríkin þurfum við fimm hnetti. Ef allir haga sér eins og Íslendingar þurfum við að minnsta kosti 11 hnetti. Það er sláandi. Við eigum nefnilega bara eina jörð. Þín umhverfishegðun skiptir máli. Förum vel með jörðina okkar.

-Viktoría

p.s. Ég skrifaði grein á vefnum Í boði nátturunnar um nokkur ráð að umhverfisvænum lífstíl og í kjölfarið var haft samband við mig frá Morgunútgáfunni hjá Rás 2 og ég beðin um viðtal. Fyrir áhugasama er enn hægt að hlusta á viðtalið:

http://ruv.is/sarpurinn/klippa/umhverfisvaenn-lifstill

o-EARTH-

Hlustaðu á hjarta þitt

listen to your heart

Ég var á mjög áhugaverðu málþingi á vegum Siðmenntar síðast liðin laugardag sem bar heitið Flóttamenn, hælisleitendur og mannúðinn. Frummælendur voru Kristjana Fenger, lögfræðingur hjá Rauða krossinum, Zahra Mesbah, fyrrum flóttamaður og Jóhann Björnsson, formaður Siðmenntar.

Ástæðan fyrir  málþinginu var að opna umræðu um flóttamannaáskorunina sem við Evrópubúar stöndum fyrir. Koma flóttamanna og hælisleitenda til Íslands hafa vakið upp spurningar hvort betur væri hægt að standa að málum. Það virðist skorta mannúð í löggjöfinni, í viðhorfum ríkisstjórnarinnar og í almennum umræðum. Oft stela þeir athyglinni sem mesta hafa fordómana. Hvernig getum við gert betur hér á landi? Hvernig hefur upplifun flóttamanna af komunni til landsins verið? Hvað segja húmanistar um málefnið? (texti tekinn af facebook síðu viðburðarins).

Erindi frummælenda voru mjög áhugaverð og vöktu mig til mikillar umhugsunar um málefni flóttamanna og hælisleitenda hér á landi. Spurning sem ómaði í huga mér eftir málþingið var: „Hvað myndi ég vilja að aðrar þjóðir gerðu ef ég væri flóttamaður?”. Svar mitt er einfalt. Ef ég þyrfti að yfirgefa Ísland í algjörri neyð sökum þess að stríð geisar og því ekki búandi hér á landi lengur þá myndi ég óska þess að aðrar þjóðir tæku mér opnum örmum og leyfðu mér að setjast þar að. Ég myndi óska að aðrar þjóðir sýndu mannúð og umhyggju og gæfu mér tækifæri til að öðlast nýtt heimili í nýju landi.

Þótt svar mitt sé einfalt þá er flóttamannaáskorunin það alls ekki. Það virðist vera sem svo að við getum ekki hleypt öllum þeim sem vilja inn í okkar land. Þar sem ég er bjartsýn að eðlisfari þá tel ég samt að við getum gert betur í þessum málum. Ég tel að það sé orðið tímabært að stokka upp í löggjöfinni og hafa mannúðina að leiðarljósi í þessum efnum.

Á leið minni heim af málþinginu ómaði lagið Listen to your heart með Roxette í útvarpinu. Ég byrjaði, að sjálfsögðu, strax að syngja með. En í þetta sinn þá hlustaði ég ekki á textan sem ástarlag heldur hlustaði ég hann út frá flóttamannaverkefninu. Það gaf textanum alveg nýja merkingu. Ég skora á ykkur til að svara spurningunni sem ég svaraði hér að ofan og hlusta svo í kjölfarið á þetta fallega lag með Roxette. Getum við ekki hlustað oftar á hjartað okkar áður en við kveðjum flóttamenn og hælisleitendur og sendum þau út í óvissuna? Getum við ekki staldrað aðeins við og hugsað í stað þess að skýla okkur á bak við dyflinnarreglugerðina eða aðrar reglugerðir? Hlustum á hjartað okkar og höfum mannúðina að leiðarljósi.

-Viktoría

“Listen To Your Heart”

I know there’s something in the wake of your smile.
I get a notion from the look in your eyes, yea.
You’ve built a love but that love falls apart.
Your little piece of heaven turns too dark.Listen to your heart
when he’s calling for you.
Listen to your heart
there’s nothing else you can do.
I don’t know where you’re going
and I don’t know why,
but listen to your heart
before you tell him goodbye.Sometimes you wonder if this fight is worthwhile.
The precious moments are all lost in the tide, yea.
They’re swept away and nothing is what it seems,
the feeling of belonging to your dreams.Listen to your heart
when he’s calling for you.
Listen to your heart
there’s nothing else you can do.
I don’t know where you’re going
and I don’t know why,
but listen to your heart
before you tell him goodbye.

And there are voices
that want to be heard.
So much to mention
but you can’t find the words.
The scent of magic,
the beauty that’s been
when love was wilder than the wind.

Listen to your heart
when he’s calling for you.
Listen to your heart
there’s nothing else you can do.
I don’t know where you’re going
and I don’t know why,
but listen to your heart
before you tell him goodbye.

Listen to your heart
when he’s calling for you.
Listen to your heart
there’s nothing else you can do.
I don’t know where you’re going
and I don’t know why,
but listen to your heart
before you tell him goodbye.