Að elska sig eins og maður er

Það er vel við hæfi að endurbirta þennan flotta pistill frá Gróu Rán sem gerir mig svo stolta! Margir byrja í átaki á nýju ári og því er nauðsynlegt að muna að við eigum bara einn líkama – förum vel með hann og elskum hann eins og hann er!
-Viktoría

Ég hef verið með hugleiðingu í kollinum sem ég verð að koma frá mér. Þessi hugleiðing kviknaði í kjölfar Sannrar Fegurðar en það er verkefni sem á að stuðla að bættri líkamsmynd stúlkna og kvenna á Íslandi. Mig langar til að deila þessari hugleiðingu með ykkur.

Þannig er mál með vexti að ég hef undafarna mánuði verið í fjarþjálfun. Í heildina var ég mjög ánægð með fjarþjálfunina, ég fékk skemmtileg æfingaplön í ræktina sem og góðar ráðleggingar og í fyrsta sinn finnst mér gaman að fara í tækjasal. Einnig fékk ég ýmis góð ráð varðandi mataræði sem og girnilegar uppskriftir. En það er eitt sem stakk mig varðandi þessa fjarþjálfun, eitthvað sem hentaði mér illa. Það er hvernig árangur er mældur. Á þriggja vikna fresti vigtaði ég mig og mældi ummál ákveðna líkamsparta. Á sex vikna fresti sendi ég inn mynd af sjálfum mér á nærfötum einum klæða. Árangur er mældur út frá tölunni á vigtinni og ummálstölunum sem eiga að lækka og að ég ætti að sjá gríðarlegan mun á myndunum. Ég sendi allt í allt þrjár myndir inn og fimm mælingar og þetta var að virka, ég sá mun.

En það eru annars konar áhrif sem þessi mæling hafði á mig. Í upphafi þjálfunar átti maður að setja sér markmið. Ég setti þau markmið að líða vel í eigin skinni og rækta heilbrigða sál í hraustum líkama. Mér finnst þessi mæling ekki henta mínu markmiði. Talan á vigtinni segir ekkert til um það hversu vel mér líður í eigin skinni. Sem dæmi má nefna þá kom helsti “árangurinn” í fjarþjálfuninni eftir rúmlega viku veikindatímabil þar sem ég mætti aðeins einu sinni í ræktina! Það að mæla mig svona reglulega ýtti líka undir óöryggi mitt með eigin líkama. Allt í einu var ég ósátt við allar tölurnar og líkamshlutanna sem tölurnar tengdust. Ég vildi vera léttari og grennri. Ég sem hafði unnið svo gott starf síðastliðið ár með að sættast við minn líkama.

Þessi líkami er nefnilega mjög merkilegur. Hann hefur gengið í gegnum ýmislegt með mér, bæði súrt og sætt. Þessi líkami hefur fylgt mér í gegnum gleðirík æskuár, erfið unglingsár sem einkenndust af alvarlegu þunglyndi þar sem ég reyndi meira að segja að yfirgefa líkamann eitt sinn með tilraun til sjálfsvígs. Sem betur fer tókst það ekki. Það var í þessum líkama sem ég kynnist manninum mínum, mínum besta vini og lífsförunaut. Þessi líkami fylgdi mér í gegnum allar upp- og niðursveiflurnar sem tilheyrðu menntaskólaárunum og fyrsta árinu í háskóla með tilheyrandi þyngdartapi og þyngdaraukningu. Hann kom mér í gegnum bata þar sem ég sigraðist nánast alveg á þunglyndinu. Það var í þessum líkama sem ég gifti mig, þessi líkami varð óléttur og það var þessi líkami sem kom litla drengnum mínum í heiminn, en hann er mitt mesta og besta afrek í lífinu. Þessi líkami hjálpaði mér að uppgötva ný áhugamál, eins og að fara út að skokka sem bæði ég og líkaminn erum mjög hrifin af. Ég á því að vera stolt og ánægð með líkamann minn.

En þegar ég tók myndir af honum og sendi inn þá sá ég bara bumbuna, feit læri og slitför. Óánægja fór að myndast í kollinum á mér. Ég fór að ímynda mér aðra mynd af sjálfri mér þar sem ég væri grennri og fallegri. Þetta átti að vera “eftir” myndin. Eftir að ég væri búin að missa fullt af kílóum og sentímetrum í ummál. Þá fyrst gæti ég verið ánægð með líkama minn. Sem betur fer áttaði ég mig á því að svona vil ég ekki lifa lífinu. Ég vil ekki stöðugt vera að eltast við einhverja “eftir” mynd, mynd í kollinum á mér sem mjög líklega verður aldrei að veruleika. Því þessi eltingaleikur gerir það að verkum að maður er ósáttur með “fyrir” myndina. Sú mynd sýnir samt mig eins og ég er í dag. Og ég á að elska mig eins og ég er, ekki eins og ég mun kannski, mögulega verða í framtíðinni.

Tilgangur minn með þessari hugleiðingu er að hvetja ykkur að velta því fyrir ykkur hvernig þið hugsið um ykkar líkama og vonandi eru þið sátt við hann og elskið hann eins og hann er. Því langaði mig að stíga rækilega út fyrir þægindarammann og pósta þessa hugleiðingu ásamt mynd af mér á nærfötunum. Þetta er ekki “fyrir” mynd eða “eftir” mynd. Þetta er bara mynd. Mynd af mér. Með öllum mínum kostum og göllum. Þetta er ég og ég er ansi stolt af mér og mínum líkama. Sönn fegurð!

ég sjálf

Þessa hugleiðingu skrifaði ég á facebook 1. maí 2015. Hún fékk töluverða athygli og birtu vefmiðlarnir Fréttanetið og Bleikt.is hana hjá sér. Ég bjóst ekki við þessari athygli þegar ég póstaði hugleiðingunni í upphafi en var samt mjög glöð með hana, enda fékk ég nánast eingöngu jákvæð skilaboð og komment í kjölfar birtingarinnar. Vonandi varð hún til þess að fleiri fóru að hugsa um sinn líkama á jákvæðari hátt 🙂

-Gróa Rán

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s