Geðhvarfasýkin mín

Ég (Gróa Rán) greindist nýlega með geðhvarfasýki. Það var í raun mikill léttir þar sem alla ævi hef ég verið að glíma við andlegt ójafnvægi en ég bara vissi ekki afhverju. Ég hef lært um geðhvarfasýki í háskólanum en aldrei hefði mig grunað að ég væri að kljást við þennan sjúkdóm. Eftir greininguna finnst mér ég þurfa að endurskoða líf mitt upp á nýtt. Ég greindist með geðhvarfasýki eftir að hafa farið hátt upp í örlyndi eða maníu eins og það er líka kallað. Ég talaði endalaust, það meikaði lítin sens það sem ég sagði og hugsanirnar mínar voru á hundrað földum hraða. Það var mér til happs að ég var í vetttvangsnámi á geðdeild og þess vegna uppgötvaðist ástand mitt.

Ég lagðist í kjölfarið inn á geðdeild. Allt í einu fór líf mitt á hvolf. Ég átti að útskrifast í vor sem iðjuþjálfi en nú þarf ég að fresta útskrift um ár. En fyrsta tilfinningin í þessu veikindaferli var samt léttir. Því alla ævi hef ég vitað að eitthvað væri að mér, ég vissi bara ekki hvað. Nú veit ég það og get því lært að lifa með því. En fyrst þarf ég að komast í gegnum niðursveifluna sem kemur fast á hæla uppsveiflunni. Því eftir örlyndistímabil kemur þunglyndistímabil. Á þeim stundum græt ég mjög mikið. Mér finnst ég vera dofin og á erfitt með að njóta þess að vera til. Allt er erfitt. Ég þarf að beita allri minni orku bara í það að fara á fætur á morgnanna. Þegar sonur minn brosir til mín þá krefst það orku að brosa á móti. Stundum get ég það ekki einu sinni. Síðan koma grátköstin. Þar sem gráturinn er óstöðvandi. Ég hef samt lært að grátköstin eru góð. Þau losa um spennu og mér líður alltaf örlítið betur eftir á.

Það sem er erfiðast við grátköstin er að þá leitar á mig þessi hugsun: Er lífið þess virði að lifa því? Þá er eins og hugurinn skiptist í tvær fylkingar. Önnur segir “Nei, þetta er of erfitt, þér mun ekki takast að komast  upp úr þessari niðursveiflu. Þú ert að eyðileggja allt í kringum þig. Engum finnst gaman að hafa þig í sínu lífi. Það væri betra að hverfa burt.” Hin fylkingin segir “JÁ! Lífið er þess virði að lifa því. Þetta verður betra. Áður en þú veist af munu koma betri dagar. Þú átt yndislegt fólk í kringum þig sem elskar þig út af lífinu. Þú elskar lífið. Þetta mun lagast. Hafðu trú á sjálfri þér”.

Ég vel að hlusta á jákvæðu fylkinguna. Ég vel að trúa að lífið verði betra. Ég hef þurft að velja á hverjum einasta degi síðan ég veiktist. Það er erfitt, það tekur frá mér orku en ég veit að það er rétt val. Nú ríkir mikið andlegt ójafnvægi, en þannig hefur það verið allt mitt líf. Nú hef ég samt tækifæri að læra um minn sjúkdóm. Kynnast geðhvarfasýkinni. Það mun auðvelda mér lífið. Um leið og mér tekst að ná sátt við minn sjúkdóm þá verður lífið auðveldara. Mitt markmið er að gerast vinkona geðhvarfasýkinnar. Ég losna ekki við hana svo ég get allt eins boðið hana velkomna í líf mitt.

tornintwo

Geðhvarfasýki einkennist af miklum uppsveiflum og niðursveiflum. Ég hef enga stjórn á þeim. En ég hef valið um að vera jákvæð. Vera bjartsýn. Velja að sjá það góða við lífið. Líta upp í ljós eins og Páll Óskar syngur um í lagi sínu. Það mun ég gera svo lengi sem ég lifi. Góðu stundirnar í lífinu bæta margfalt upp fyrir þær erfiðu. Það er allavega mín reynsla.

-Gróa Rán

Advertisements

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s